Gönguferð í umhverfi Djúpavogs

fimmtudagur, 25. júní 2020 18:00 - sunnudagur, 28. júní 2020 12:00, Nauthóll Nauthólsvegi 106 101 Reykjavík
Stutt ferðalýsing gönguferðar ferðaklúbbs RRM á Djúpavog dagana 25. - 28. júní 2020.

 


Föstudagur 26. júní

 

8-10 Morgunmatur

 

9:30 Gönguferð - Hálsar

Gengið er frá Hótel Framtíð upp klifið og gömlu þjóðleiðina út úr þorpinu sem nefnist Olnbogi. Þaðan er gengið að Rakkabergi sem er gömul álfakirkja og áleiðis inn Berufjörðinn og upp á Hálsa sem er lítill fjallgarður á milli Berufjarðar og Hamarsfjarðar utan við Hálsfjall og Búlandstind. Frá Hálsum er útsýni yfir nánast allan Djúpavogshrepp. Gengið er niður við Merki sem er Hamarsfjarðarmegin og þaðan haldið í Hálsáskóg sem er einstakt skógræktarsvæði. Þar er upplagt að snæða nesti. Á heimleiðinni eru Eggin í Gleðivík skoðuð og þeir sem vilja geta skoðað sig um í Hvarfi sem er safn og minjagripaverslun. Lögð er áhersla á að kynna stórbrotna náttúru og kynnast menningu og sögu Djúpavogshrepps.

Nokkuð krefjandi ganga, sérstaklega þegar gengið er upp á Hálsana sem er ekki langur kafli. Tími um 4 - 5 klst.

 

 

16:00 Menningarferð - gönguferð um þorpið

Gengið er frá Hótel Framtíð að Löngubúð og þaðan í Steinasafn Auðuns. Eftir gott stopp þar er gengið meðfram ströndinni að Eggjunum í Gleðivík. Í lok ferðar er farið inn í gamlan hreinsaðan lýsistank þar sem fram fara stuttir tónleikar.

Þægileg ganga að mestu leyti á jafnsléttu.


19:30 Kvöldverður á hótelinu 


Laugardagur 27. júní 

 

8:00 Morgunverður

 

10:00  Gönguferð - Náttúra, fuglar og svartir sandar

  Gengið er frá Hótel Framtíð upp  á Bóndavörðu, sem er nokkuð á fótinn, gamla veginn að Breiðavogi og fuglaskoðunarhúsi  í nágrenni Fýluvogs. Þaðan er gengið út á svarta sanda sem er einstök náttúruparadís í nágrenni Djúpavogs. Ef það er fjara geta þeir sem vilja og hafa getu til klöngrast ofan í fjöruna í Sandey og skoðað helli sem þar er að finna. Á bakaleiðinni er staldrað við sunnan við fuglahúsið við Fýluvog sem er hentugt nestisstop.

Lögð er áhersla á að kynna stórbrotna náttúru, skoða fugla og kynnast menningu og sögu Djúpavogshrepps.

Þægileg ganga, mest á malarvegi og á svörtum söndum. Tími um 4 klst.

 

 

19:00   Hátíðarkvöldverður 


Sunnudagur 28. júní


8:00  Morgunverður


9:30  Ekið til Gautavíkur 

Hjónin Oddný Anna Björnsdóttir og Pálmi Einarsson heimsótt. Pálmi er iðnhönnuður og Oddný Anna viðskiptafræðingur en þau fluttu til Gautavíkur 2018 og reka þar hönnunarfyrirtækið Geislar hönnunarhús. Eins eru þau frumkvöðlar fyrir ræktun á iðnaðarhampi á Íslandi oga hafa barist fyrir heimild til þess, sem fékkst í vor og er nú ræktun hafin hjá þeim.  Þau sjá mikil tækifæri í hampræktun og eru full af fróðleik um það.

 „Það felast mikil tækifæri og að mörgu leyti aukin lífsgæði í því að búa út á landi. Sífellt fleiri eru að átta sig á því sem hefur orðið til þess að þróunin er að snúist við. Síðastliðin tvö ár fluttu fleiri úr þéttbýli í dreifbýli en öfugt, í fyrsta sinn síðan 1906,“ segir Oddný Anna Björnsdóttir en hún flutti nýverið með fjölskyldu sinni í Gautavík í Berufirði.

https://www.austurfrett.is/frettir/fannst-gautavik-langt-i-burt-istan


Smá fróðleikur um Djúpavog:

Djúpavogshreppur varð til þann 1. október 1992 við sameiningu þriggja hreppa: BúlandshreppsBeruneshrepps og Geithellnahrepps.

Sveitarfélagið er víðfemt, samtals um 1.153 km2, en í því eru þrír firðir; Álftafjörður, Hamarsfjörður og Berufjörður. Kauptúnið Djúpivogur stendur á Búlandsnesi sem er á milli Hamarsfjarðar og Berufjarðar. Hinn formfagri Búlandstindur (1.069 m.) er þekktasta kennileitið í Djúpavogshreppi. Safna- og menningarhúsið Langabúð, byggt árið 1790, setur einnig mikinn svip á bæjarmynd Djúpavogs.

Eyjan Papey tilheyrir Djúpavogshreppi. Hún er stærsta eyjan fyrir Aåusturlandi, u.þ.b. 2 km², þvínæst beint austur af Hamarsfirði og var eina eyjan í byggð, en er nú í eyði. Þar var eitt býli og kirkja frá 1902, sem er útkirkja frá Djúpavogi.